Upplýsingar

Púttið er á föstudögum yfir vetrarmánuðina frá kl. 10.00-12.00 í Hamarshöllinni. Nýir púttarar velkomnir, líka byrjendur.

Strandarbikarinn 2017

Bikarmót pútthópsins 2017  fór fram miðvikudaginn 14. júní á Strönd á Rangárvöllum. Veður og aðstaða var eins og best verður á kosið, og þátttaka var með meira móti, ef ekki met, en 17 keppendur mættu til leiks. Leikur hófst klukkan 11, og eftir að leiknar höfðu verið 36 holur var sest að snæðingi í golfskálanum. Á borðum var næringarrík og sterk gúllassúpa með brauði og kaffi. Að venju var Svavar Hauksson mættur af hálfu heimamanna og er honum þakkaður stuðningurinn.

Verðlaun: Aukaverðlaun voru þrenn að þessu sinni, veitt fyrir besta skor í keppninni. Í fyrsta og öðru sæti og jafnir voru Jóhann Gunnarsson og Sigurjón Skúlason, á 78 höggum. Hlutu þeir inneignarkort frá N 1 í Hveragerði að upphæð 3 þúsund krónur. Er Enn einum þakkað innilega fyrir gjöfina. Þriðju verðlaun, vænan slatta af sælgæti í poka, keyptan í Bónusi fyrir eftirstöðvarnar í grísnum, sem alls  voru 1450 krónur, hlaut Guðmundur Kr. Jónsson, sem lék á 81 höggi.

Var þá komið að Strandarbikarnum, farandbikar sem Jóhann gaf árið 2013. Er honum úthlutað með útdrætti með þeim rökstuðningi að í raun hafi allir þátttakendur unnið með því að taka þátt og ljúka keppni. Enginn getur unnið bikarinn oftar en fjórða hvert ár. Varðveislumaður bikarsins næsta árið verður Egill Gústafsson.

Athugasemd um bikarmótið 2016. Láðst hefur að skrá úrslit bikarmótsins 2016, og eru litlar heimildir um það hvernig leikar fóru nema handhafi Strandarbikarsins síðastliðið ár var Ásgeir Björgvinsson.

Vormisseri 2016

Vormisseri pútthópsins 2016
lauk með verðlaunaafhndingu í morgun, föstudaginn 18. mars.
Keppt var ellefu föstudagsmorgna, 36 holur hvern dag í Hamarshöllinni. Verðlaun voru veitt fyrir bestu fimm daga, með og án forgjafar sem reiknuð er fyrir hvert keppnistímabil. Sá háttur er hafður á að safnað er framlögum í sparibauk, 100 krónum hvern keppnisdag þar til stjórnanda þykir nóg komið. Einungis viðstaddir geta fengið verðlaun, og enginn getur fengið fleiri verðlaun en ein hverju sinni. Verðlaun eru að jafnaði eitthvað ætilegt og ekki endilega hollustufæða. Öll verðlaun að þessu sinni voru Bónuspáskaegg.

Verðlaunahafar án forgjafar:
1. Guðmundur Jónsson (Egg nr. 6) 313 högg
2. Sigurjón Skúlason (Egg nr 5) 314 högg
3. Sigfús Skúlason (Egg nr. 4) 327 högg

Verðlaunahafar með forgjöf:
1. Svanur Jóhannesson (Egg nr. 6) 294 högg
2. Lovísa Aðalsteinsdóttir (Egg nr. 5) 307 högg
3. Egill Gústafsson (Egg nr 4) 315 högg

Langpúttið, tvær tilraunir, endaði þannig að Guðmundur Jónsson og Sigurjón Skúlason voru jafnir næst holu, 17,5 sm frá, en þar sem þeir höfðu þegar hreppt verðlaun voru það konurnar í þriðja og fjórða sæti sem fengu eggin, Gillý Skúladóttir nr. 6 (18 sm frá holu) og Fjóla Ragnarsdóttir nr. 4 (38 sm frá holu).

Happdrætti meðal allra sem þá höfðu ekkert fengið um egg nr. 4 fór svo að Einar Benediktsson hlaut það.

Púttmótaröðin haustið 2015

Púttmótaröðinni haustið 2015 lauk með verðlaunaafhendingu föstudaginn 11. desember. Eins og áður var keppt í þremur flokkum og gilda fimm bestu dagar (besti dagur þýðir fæst högg á 36 holum). Níu keppnisdagar voru teknir með (16. okt til 11. des), en fjórir þar á undan voru taldir æfingadagar.

Flokkarnir eru:
1. flokkur án forgjafar. Þar voru jafnir í fyrsta sæti Guðmundur Jónsson og Sigurjón Skúlason á 316 höggum. Bráðabani milli þeirra féll Guðmundi í hag. Í þriðja sæti voru þrjú jöfn á 337 höggum, Árni Guðmundsson, Helga Haraldsdóttir og Örn Sigurðsson.  Árni vann bráðabana þeirra í milli. Verðlaun féllu því svo:

1. verðlaun á 316 höggum: Guðmundur Kr. Jónsson
2. verðlaun á 316 höggum: Sigurjón Skúlason
3. verðlaun á 337 höggum: Árni Guðmundsson.

2. flokkur með forgjöf. Forgjöf reiknast sem hlutfallstala út frá meðalskor besta keppanda á síðustu önn. Hjónin Lovísa Aðalsteinsdóttir og Einar Benediktsson reiknuðust jöfn í þriðja sæti. Bráðabani þeirra í milli féll Einari í hag.

1. verðlaun með forgjöf á 295 höggum: Einar Magnússon
2. verðlaun með forgjöf á 301 höggi: Ásgeir Björgvinsson
3. verðlaun með forgjöf á 302 höggum: Einar Benediktsson.

3. utan flokka, keppendur sem ekki hafa verið með áður og þessvegna ekki fengið forgjöf. Í þessum hópi voru tveir keppendur, Lena Kristbjörg Poulsen og Fjóla Ragnarsdóttir. Lena var ekki viðstödd, en það er regla að enginn fær verðlaun nema hann sé viðstaddur.

1. verðlaun á 379 höggum: Fjóla Ragnarsdóttir.

Að lokum var keppt um aukaverðlaun með því að leika tveimur kúlum enda á milli á vellinum. Starfsmaður Hamarshallarinnar, Þorsteinn Ingi Ómarsson, tók að sér dómarahlutverkið í keppninnni um aukaverðlaunin.

1. verðlaun 29 sm frá holu: Helga Haraldsdóttir
2. verðlaun 58 sm frá holu: Svanur Jóhannesson.

Sá siður er nú orðinn fastur í sessi að verðlaun, keypt fyrir hundraðkalla sem safnast í sparigrís pútthópsins, skuli vera þess eðlis að þau megi láta ofan í sig. Að þessu sinni voru verðlaunin jólabakkelsi frá Bakarameistaranum í Reykjavík og Almari bakara í Hveragerði.

Strandarbikarinn 2015

Strandarbikarsmótið var að þessu sinni haldið miðvikudaginn 15. júlí, og að sjálfsögðu á átján holu púttvellinum á Strönd. Fimmtán félagar mættu til leiks, og sextán í súpuna, sem var gómsæt og vel útilátin að vanda. Sérstakur dómari var fenginn til mótsins, Svavar Hauksson, sem fæddur er og uppalinn í Hveragerði. Meðal verkefna hans var að draga úr skorkortunum handhafa Strandarbikarsins næsta ár. Upp kom nafn Einars Benediktssonar. P1050612 Kynnt var ný regla um bikarinn, nefnilega að sami einstaklingur geti ekki fengið hann oftar en fjórða hvert ár. Því voru fyrri handhafar tveir ekki gjaldgengir nú.
Leitað hafði verið til Hoflandsetursins með ósk um gjafabréf til verðlauna. Var bóninni vel tekið og voru tvö rausnarleg gjafabréf að verðlaunum fyrir besta og næstbesta skor. Kærar þakkir, Hoflandsetur! Best átti Guðjón Loftsson, 78 högg á 36 holum, og næstbest Ásgeir Björgvinsson, 83 högg. Hæst var skorað 103 högg.

Hér að neðan eru  verðlaunahafarnir þrír (Einar, Ásgeir, Guðjón) og þátttakendurnir 15 (Kjartan, Jóhann, Örn, Árni, Ragnheiður, Svanur, Einar, Bjarney, Sigfús, Ásgeir, Steinunn(gestur, systir Bjarna), Guðjón, Bjarni, Kristín, Lovísa).

Strandarbikarinn, farandbikar fyrir púttmót FEBH á Strandarvelli á Rangárvöllum. Gefandi: Jóhann Gunnarsson
Handhafar:
2015: Einar Benediktsson
2014: Svanur Jóhannesson
2013: Bjarni Sæberg Þórarinsson

P1050611 P1050616

Púttmótaröðin á vori 2015

Síðasti púttdagur vorið 2015 var 27. mars, en þar áður voru komnir 11 föstudagar í mótaröðina. Ákveðið hafði verið að fimm bestu dagar skyldu gilda til verðlauna. Síðasta daginn var púttað í 18 holur og síðan eitt langpútt, sem átti að skera úr um hver fengi aukaverðlaunin. Fyrir nokkru ákvað Jóhann pútteinvaldur að verðlaun skyldu öll vera ætileg, og að enginn fengi verðlaun nema viðstaddir á uppgjörsdegi. Safnað var fyrir verðlaunum með 100 króna framlagi þar til Jóhanni fannst komið nóg. Að þessu sinni söfnuðust 11485 krónur og voru öll verðlaunin páskaegg.

Þrír flokkar eru til að keppa í. Fyrst er besti árangur, það er fæst högg á fimm keppnisdögum eða 180 holum. Næsti flokkur er besti árgangur með forgjöf sem Jóhann reiknar út frá árangri síðasta misseris á undan. Í þriðja flokki eru nýir þátttakendur sem ekki hafa enn unnið til forgjafar, og kallast utan flokka.  Verðlaunin skiptust svo:

Utan flokka skilaði aðeins einn keppandi fimm daga runu, Lovísa Aðalsteinsdóttir, sem hlaut því fyrstu verðlaun í þeim flokki.

Með forgjöf hlutu þessir verðlaun:
1. Einar Magnússon á 280,9 höggum,
2. Kjartan Kjartansson á 289,55 höggum,
3. Einar Benediktsson á 295,73 höggum.

Án forgjafar var röðin þessi:
1. Guðmundur Jónsson á 308 höggum,
2. Sigurjón Skúlason á 311 höggum,
3. Egill Gústafsson á 330 höggum.

Spennandi keppni varð um aukaverðlaunin þar sem tveir hittu í holu í fyrstu umferð, Helgi Krsitmundsson og Egill Gústafsson. Úrslitaviðureign þeirra fór þannig að Helgi var nær holu og kom því eggið í hans hlut.

Á myndunum hér fyrir neðan eru þau sem viðstödd voru verðlaunaathöfnina, en að henni lokinni var steðjað í kaffi og tertu hjá Kjöti og kúnst. Svanur og Ásgeir sjást illa á báðum, en þekkjast hvor á sinni, þessvegna þótti rétt að birta báðar.
Frá vinstri: Egill, Jóhann, Helga, Sigurjón, Hrafnhildur, Kjartan, Einar Ben, Sigfús, Lovísa, Svanur, Helgi, Árni, Einar Magg, Guðmundur, Ragnheiður, Ásgeir, Diðrik Óli, Jón Ingi, Bjarni, Björn.

P1050060