1. kafli. Nafn, heimili og hlutverk
Félagið heitir Félag eldri borgara í Hveragerði.
Heimili þess og varnarþing er í Þorlákssetri að Breiðumörk 25b, 810 Hveragerði.
Markmið félagsins er að vinna að velferðarmálum eldra fólks með því að:

Vekja athygli og auka skilning almennings, þjónustufyrirtækja, ríkis og sveitarfélagsins á þörfum eldri borgara.
Stuðla að aukinni þjónustu fyrir eldri borgara.
Skipuleggja og framkvæma tómstunda- og félagsstarf meðal félaga.
Vinna að öðrum þeim málum sem til hagsbóta teljast fyrir eldri borgara.

2. kafli. Félagsaðild
Almenna félagsaðild eiga allir þeir sem búa í Hveragerði og nágrenni og hafa náð 60 ára aldri og/eða eftirlaunaaldri sé hann fyrr. Makar félagsmanna eiga rétt á aðild að félaginu óháð aldri þeirra. Einstaklingar, félög og fyrirtæki geta orðið styrktaraðilar að félaginu. Styrktaraðilar hafa þó ekki atkvæðisrétt á fundum félagsins. Stjórn félagsins skal halda skrá yfir félagsmenn.

3. kafli. Árgjöld og tekjur
Tekjur félagsins eru félagsgjöld, rekstrarstyrkur Hveragerðisbæjar á hverjum tíma, gjafir, einstök framlög og fjáraflanir félagsins. Árgjöld félagsmanna skulu ákveðin á aðalfundi ár hvert. Reikningsár félagsins skal vera almanaksárið. Félagið er í Landssambandi eldri borgara.

4. kafli. Skipan stjórnar og verkefni
Stjórn félagsins skipa fimm menn og tveir til vara. Formaður, varaformaður, gjaldkeri, ritari, meðstjórnandi og tveir til vara. Kjörtímabilið er tvö ár. Formaður er kosinn sérstaklega. Enginn skal sitja í formannssæti lengur en tvö kjörtímabil í röð. Stjórnin skiptir með sér verkum.
Formaður er forsvarsmaður félagsins, hann boðar til funda og stjórnar þeim. Gjaldkeri annast almennar fjárreiður félagsins í umboði stjórnar samkvæmt almennum reglum þar um. Ritari heldur gerðabók félagsins og skráir þar ályktanir funda, einnig ferðir og aðra starfssemi félagsins. Stjórn félagsins ber ábyrgð á fjárreiðum þess. Stjórn félagsins er heimilt að skipa nefndir til að annast tiltekin verkefni, ákveða verksvið þeirra og setja þeim starfsreglur.
Stjórnin hefur á hendi yfirstjórn á fasteign félagsins og skipar fulltrúa í hússtjórn. Breyting á fasteign félagsins verður þó að hljóta samþykki aðalfundar.
Óheimilt er, nema að fengnu samþykki löglega boðaðs félagsfundar, að setja fasteign félagsins sem tryggingu fyrir skuld, þ.á.m. að veðsetja hana.
Óheimilt er að leigja eða veita öðrum en félagsmönnum afnotarétt á fasteign félagsins.
Engin föst laun greiðast fyrir stjórnar- né fundasetu. Öll meiriháttar mál skal stjórnin bera undir félagsfund.

5. kafli. Aðalfundur
Aðalfund skal halda í febrúar ár hvert. Boða skal til aðalfundar og félagsfundar með viku fyrirvara með dreifibréfi til félagsmanna, í héraðsblaði og í Þorlákssetri.
Í fundarboði skal tilgreina hverjir gangi úr stjórn félagsins.
Komi fram skrifleg krafa a.m.k. 10% félagsmanna um félagsfund er stjórninni skylt að halda fund svo fljótt sem auðið er. Verkefni aðalfundar eru:

Endurskoðaðir ársreikningar kynntir og bornir upp til samþykktar.
Lagabreytingar.
Ákveðin árgjöld félaga.
Kosning formanns, fjögurra aðalmanna og tveggja varamanna í stjórn og tvo skoðunarmenn og einn til vara.
Kosning fulltrúa á þing Landssambands eldri borgara.
Önnur mál.

6. kafli. Uppstillingarnefnd
Stjórn félagsins skipar þrjá menn í uppstillingarnefnd og setur henni formann. Uppstillingarnefndin skal gera tillögur um: Formann félagsins, menn í stjórn og varastjórn og skoðunarmenn ársreikninga. Einnig fulltrúa á þing LEB það ár sem þingið er haldið.
Tillögur uppstillingarnefndar skulu liggja frammi á skrifstofu félagsins í tvær vikur fyrir aðalfund og skulu þær auglýstar.
Tillögur félagsmanna um einstaka menn til stjórnarkjörs skulu berast uppstillingarnefnd eða skrifstofu félagsins minnst fjórum vikum fyrir aðalfund.

7. kafli. Atkvæðavægi og breytingar
Á stjórnar- og félagsfundum ræður einfaldur meirihluti atkvæða. Til lagabreytinga þarf a.m.k. 2/3 hluta greiddra atkvæða. Tillaga til lagabreytinga skal tilkynnt í fundarboði aðalfundar. Fundir félagsins eru löglegir sé til þeirra boðað með tilskyldum fyrirvara og á löglegan hátt. Verði félagsslit skulu eignir félagsins renna til hagsmunamála aldraða samkvæmt ákvörðun sama félagsfundar.

Ákvæði til bráðabirgða:
Ákvæði 4. kafla sem mælir fyrir um, að engum sé heimilt að sitja í formannssæti lengur en tvö kjörtímabil í röð, gildir frá og með kosningu á aðalfund félagsins á árinu 2012.

Þannig samþykkt á aðalfundi 17. febrúar 2011.