Aðventuganga

Aðventuganga
Lionsklúbbur Hveragerðis í samvinnu við Lionsklúbbinn Eden, Hjálparsveit skáta Hveragerði, Heilsustofnun NLFÍ og Félag eldriborgara Hveragerði efnir til stuttrar aðventugöngu sunnudaginn 17. desember 2023 kl. 15:00 Komið verður saman á bílastæði við Grýluvöll (ath. þar sem Hamarshöllin var). Lagt verður upp í um 15 – 20 mínutna göngu upp að vatnsverdar-svæði norðan undir Hamrinum. Þar er komið að notalegu skógarrjóðri og ætla Lionsmenn að afhjúpa þar skilti er á stendur þeirra nafn á lundinum góða. Í lundinum góða gæðir göngufólk sér á heitu kakói ásamt piparkökum. Félagar úr Kallakór Hveragerðis eru hvattir til að koma og eru þeir þá vísir til að standa fyrir fjöldasöng á jólalögum. Eftir kakóhressingu og piparkökuát verður síðan aftur gengið til byggða og hver tekur sína rennireið til síns heima. Allir gönguglaðir Hvergerðingar eru velkomnir til að taka þátt í þessari uppákomu Lionsklúbbs Hveragerðis.
Mætið vel búinn og í góðum gönguskóm.
F.h. Lionsklúbbs Hveragerðis
Formaður Lionslundarnefndar.

Leikhúsferð 6. jan. 2024

Kæru félagar.

Strax eftir áramótin verður boðið upp á leikhúsferð.

Þann 6. janúar  er síðasta sýning á leikverkinu Með Guð í vasanum.  Þetta verk hefur hlotið mjög góðar umsagnir, þannig að við slógum til og pöntuðum miða, þó þetta sé e.t.v. ekki heppilegasti tíminn. Um verkið segir:    Ásta upplifir sig í blóma lífsins þótt hún glími við ýmis veikindi og erfiðleika sem fylgja hækkandi aldri. Ekki bætir úr skák að hjartkær einkadóttirin þvælist dálítið fyrir henni og er hreint út sagt óþolandi stjórnsöm á köflum. Þegar Ásta mætir sínum stærstu áskorunum er gott að eiga öflugan bakhjarl í Guði – ekki síst þar sem segja má að Ásta sé með hann gjörsamlega í vasanum, eða hvað? Það kemur svo í ljós að Guð þarf að láta hendur standa fram úr ermum í þeim miklu breytingum sem standa fyrir dyrum í lífi Ástu. Meðal leikara eru Katla Margrét Þorgeirsdóttir og Kristbjörg Kjeld Verkið er eftir Maríu Reyndal sem samdi verkið: Er ég mamma mín? sem var geysivinsælt verk.

Sýningin er 6. jan 2024  kl. 20.00

Miðinn kostar  7.100 kr.  Þið pantið  og greiðið í gegnum Sportable. 

Frí rúta verður frá Þorlákssetri og leggur af stað  kl.18.45

 Með kveðju  leikhúsnefnd

Frá uppstillinganefnd

Góðir félagar
Uppstillingarnefnd Félags eldri borgar í Hveragerði hvetur þá liðsmenn sem áhuga hafa á setu í stjórn félagsins að bjóða sig fram fyrir næsta kjörtímabil (tvö ár). Aðalfundurinn verður haldinn þ. 16. febrúar 2024. Starfið hefur verið mjög kraftmikið og mikilvægt að svo verði áfram. Við hvetjum áhugasama til þess að bjóða sig fram til stjórnarsetu í okkar góða félagi.
Í aðalstjórn sitja fimm manns og þar hafa lokið kjörtímabili nú: Daði Ingimundarson, Marta Hauksdóttir og Steinunn Aldís Helgadóttir, þau gefa ekki kost á sér til endurkjörs.
Í varastjórn sitja tveir menn. Björn Guðjónsson hefur lokið kjörtímabili og gefur ekki kost á sér til endurkjörs. Stjórnin tilnefnir fulltrúa á þing Landsambands eldri borgara (LSEB).
Framboði skal skila til uppstillinganefndar í netpósti fyrir 19. janúar 2024. Eyvindur Bjarnason, netfang: kjarrheidi10@gmail.com Jóna Einarsdóttir, netfang: jonaein@simnet.is
Sesselja G. Guðmundsdóttir, netfang: 49sess@gmail.com
Kveðja, uppstillingarnefnd
Ps. Skoðunarmenn reikninga gefa kost á sér áfram, þau Hólmfríður Skaftadóttir, Þórdís Magnúsdóttir og til vara Jakob Árnason.

Dansinn dunar

Kæru félagar
Dansnámskeiðinu “ballfær” með Önnu Berglindi í Þorlákssetri er nú lokið,  EN haldið verður áfram að dansa á fimmtudagskvöldum, mæting kl.19:30
Dansinn dunar og allir hjartanlega velkomnir.

Jólafundur og jólahlaðborð á Hótel Örk 6. 12. 2023 kl. 15-18.

Kæru félagar.

Nú er hægt að skrá sig á Jólafund og jólahlaðborð Félags eldri borgara í Hveragerði, miðvikudaginn 6.-12. kl. 15-18. Þetta árið verðum við  heima í bænum okkar og fáum glæsilegt jólahlaðborð á Hótel Örk. Hverafuglar munu syngja og eitthvað fleira verður á dagskrá. Maturinn er glæsilegur og fylgir matseðillinn hér.
Verðið er kr. 8000. Tryggið ykkur sæti með því að skrá ykkur gegnum sportabler. Lokað verður fyrir skráningu 8. nóvember nk.
FORRÉTTIR
Rússneskt Síldarsalat. Kryddsíld karrý – kókos með kapers og epli. Marineruð síld. Reyktur lax með piparrótarsósu. Grafinn lax með sinepssósu. Marineraðir sjávarréttir. Innbakað sveitapaté með bláberjahlaupi. Hangikjöts „tartar“ með balsamic vinaigrette. Fyllt egg með rækjum og kavíar. Andarconfit með truffluolíu og appelsínum. Villibráð með kryddjurtasalati og gráðostasósu.
AÐALRÉTTIR
Hangikjöt með kartöflum og uppstúf. Kalkúnabringa með ávaxtafyllingu og rifsberjarjóma. Reykt skinka og jólasinnep. Purusteik. Hægeldaður lambalærisvöðvi með villisveppasósu.
Meðlæti: Waldorf salat. Heimagert rauðkál. Sykurbrúnaðar kartöflur. Gratín kartöflur. Grænar baunir. Laufabrauð. Hverabakað rúgbrauð. Heimagert brauð.
EFTIRRÉTTIR
Ris a´la mande með kirstuberjasósu. Volg súkkulaðikaka með rjóma. Marengs með jarðaberjafyllingu. Súkkulaðimús með hindberjasósu. Créme brulée með kanil og vanilla. Úrval af ostum og smákökum.

Með bestu kveðju
Sigurlín Sveinbjarnardóttir, formaður